Var það niðurstaða fjölmenns umræðufundar að ráðast í átak til að auka þátttöku kvenna í geiranum. Fulltrúar fyrirtækja í upplýsingatækni sammæltust um að nauðsynlegt væri að bregðast við þeirri staðreynd að konur eru aðeins um fjórðungur starfsfólks í upplýsingatæknitengdum störfum á Íslandi.
Þar mátti heyra skýran vilja fyrirtækjanna til að vinna saman að átaki til að; laða fleiri stelpur og konur í tækni, gera kvenfyrirmyndir sýnilegri, bæta menningu fyrirtækjanna og hlúa að fjölbreytni í samsetningu teyma.
Fulltrúar um tuttugu fyrirtækja skrifuðu undir viljayfirlýsingu í kjölfarið um að standa að og fjármagna átak til að bæta úr stöðunni. Fyrirhugað er að stofna stýrihóp og ráða verkefnastjóra til starfa.
„Stafræna byltingin kallar á sífellt fleiri sérfræðinga í upplýsingatækni. Kynjahlutfallið í geiranum hefur lítið sem ekkert breyst til batnaðar á undanförnum tíu árum. Það gefur því auga leið að skekkjan gæti orðið viðvarandi ef ekkert verður gert. Það er því allt að vinna með því að fá fleiri konur inn í geirann. Í vaxandi atvinnugrein liggja fjölmörg spennandi tækifæri fyrir konur jafnt sem karla,“ segir Guðrún Helga Steinsdóttir, stjórnarformaður Vertonet.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, deildi þeim vilja fundargesta, að nýliðun kvenna í geiranum væri nauðsynleg. „Það skiptir höfuðmáli að fjölga konum í tæknigreinum ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem að er stefnt í íslensku samfélagi. Ég fagna því þessu frumkvæði enda skiptir máli að allir leggist á árarnar, stjórnvöld, menntakerfið og atvinnulífið. Hér eru tækifæri sem við eigum að grípa!“
Comments