Fyrirtækin Crayon og Míla ætla að styðja við konur og kvár í upplýsingatækni hér á landi með því að vera bakhjarlar samtakanna Vertonet fyrir árið 2024.
Crayon á Íslandi og Míla gerast bakhjarlar Vertonet fyrir árið 2024.
Vertonet eru óhagnaðardrifin samtök kvenna og kvára í upplýsingatækni á Íslandi. Markmið samtakanna er að skapa vettvang til að tengjast, fræðast, styðja hvert annað og síðast en ekki síst að auka fjölbreytileika í greininni. Vertonet heldur margvíslega viðburði í samstarfi við helstu upplýsingatæknifyrirtæki á Íslandi og stendur fyrir verkefnum sem stuðla að því að auka fjölbreytileika í upplýsingatækni. Meðlimir Vertonet eru um 1.000 talsins og samanstanda af konum og kvárum sem starfa í upplýsingatækni eða hafa áhuga á greininni
„Stuðningur Mílu og Crayon mun styrkja innviði félagsins og gera okkur kleift að vinna í vegferð Vertonet til framtíðar“ segir Guðrún formaður Vertonet.
Crayon á Íslandi er hluti af Crayon Group sem er alþjóðlegt upplýsingatæknifyrirtæki með höfuðstöðvar í Noregi. Crayon hefur rúmlega 4.000 starfsmenn alþjóðlega og starfar í 46 löndum. Viðskiptavinir hérlendis eru fjölmörg stærstu fyrirtæki landsins, ríki, sveitarfélög og opinberir aðilar. Hjá Crayon á Íslandi er góður hópur fólks með mikla sérþekkingu á sviði hugbúnaðarlausna sem að vinnur að því að besta fjárfestingar fyrirtækja í hugbúnaðarleyfum.
„Okkur er mikill heiður og erum stolt að vera stuðningsaðili fyrir samtök eins og Vertonet og hlökkum til þess að taka virkan þátt í að efla konur og kvár í upplýsingatækni á Íslandi“ segir Nanna Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Crayon á Íslandi.
Míla er undirstaða fjarskiptaþjónustu um allt land. Fyrirtækið rekur víðtækt koparkerfi, ljósleiðara- og örbylgjukerfi sem nær til allra heimila, fyrirtækja og stofnana á landinu. Míla leggur ríka áherslu á áreiðanleika og öryggi.
„Míla er framsækið hátæknifyrirtæki sem gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu sem rekstraraðili mikilvægra fjarskiptainnviða. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur hópur tæknifólks sem býr að mikilli reynslu og þekkingu á sviði fjarskipta. Við leggjum áherslu á fjölbreytileika innan okkar hóps og álítum að Vertonet sé góður vettvangur á þeirri vegferð okkar og erum stolt af stuðningi okkar við það góða starf sem Vertonet stendur fyrir“ segir Jóhanna Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Mílu.
Vilt þú gerast bakhjarl?
Hafðu samband við okkur í tölvupósti á vertonet@vertonet.is
Comentarios